Skip to content

Börn á grunnskólaaldri í vítahring orkudrykkja

Share That Post

Kennarinn og þjálfarinn Hilmar Þór Sigurjónsson segir allt of algengt að grunnskólakrakkar neyti svo mikils af orkudrykkjum að það leiði til svefnleysi, kvíða og eins konar fíknar í drykkina. Hilmar Þór sem kennir við Fjölbrautaskólann í Garðabæ og er knattspyrnuþjálfari hjá Breiðabliki vísar í skýrslu Matvælastofnunar en segist líka sjálfur hafa orðið vitni að því þegar börn sökkva í fen orkudrykkjanna svo úr verður vítahringur.


Í viðtali við MBL segir hann að krakkarnir drekki orkudrykki til þess að vera meira vakandi en geti svo ekki sofið vegna koffínsins um kvöldið og sofi illa – og þurfi þá aftur að sækja í drykkina daginn eftir. „Þá verður til einskonar spírall og þá er þetta orðið samlagsvandamál. Börn eiga ekki að innbyrða meira en 80 milligrömm af koffíni á dag. Í einni svona orkudrykkjadós eru 105 milligrömm,“ segir Hilmar við MBL.


Kvíði og svefnleysi


Hilmar hefur sett upp svefndagbækur fyrir börn sem leita til hans vegna svefnvandamála. Hann segist hafa orðið vitni að tilvikum þar sem krakkar allt niður í 14 ára gömul drekki 9-10 orkudrykki á dag, og sofi þá í mesta lagi 3-5 tíma. „Það eru þessi jaðartilvik þar sem einhvers konar afeitrunarástand fer í gang … Það er búið að kenna líkamanum að nota koffín þegar hann er þreyttur. Svo eykur það kvíðann og svefnleysið og svo skilur fólkið í kringum börnin ekkert hvers vegna þeim líður svona illa.“ Í verstu tilfellunum hafi börnin þurft að trappa sig niður, það er hægt og hægt minnka neysluna, þar sem þau séu orðin svo háð drykkjunum.


Þá segir Hilmar það skjóta skökku við að orkudrykkjaframleiðandinn Nocco stofni styrktarsjóði fyrir afreksíþróttafólk, því það sé ekki íþróttadrykkur heldur koffíndrykkur. Eins þurfi afreksfólk í íþróttum að hugsa sinn gang hvort það sé eðlilegt að þau auglýsi orkudrykki með koffíni á samfélagsmiðlum sínum, þar sem þau séu fyrirmyndir fyrir ungt fólk.


Heimild:
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2021/10/21/innbyrda_tolffalt_koffinmagn_og_upplifa_vanlidan/